Skip to main content

Eftir Ara Trausta Guðmundsson                   

Fagradalsfjall

Eftir lok eldgossins í Geldingadölum vakti nýtt “kvikuhlaup” athygli. Það hófst 21. desember og því lauk 7. janúar. Kvikan þrengdi sér upp úr djúpstæðri kvikuþró, í nýrri sprungu, skammt austan við virka ganginn (kvikufylltu sprunguna) sem fæddi af sér eldgosið. Hún náði ekki að rjúfa jarðskorpuna og stöðvaðist á 1,5 km dýpi.

Hekla

Hekla hefur risið og bólgnað langt umfram stöðuna fyrir gosið 2000. Smáskjálftavirkni hefur mælst árum saman en ekki tíðar hræringar. Nýliðin skjálftavirkni í Vatnafjöllum, sem er eldvirkt svæði með svipaðri kvikugerð og Hekla, er talin til spennulosunar á Suðurlands-skjálftabeltinu. Heklugos getur hafist hvenær sem er og aðdragandinn stuttur.

Grímsvötn

Töluverð skjálftavirkni hefur verið í Grímsvötnum ár hvert, undanfarið. Sum Grímsvatnagos leiða beinlínis til Skeiðarárhlaupa en jökulhlaup geta líka leyst Grímsvatnagos úr læðingi eins og árið 2004. Staðan gæti bent til að líkur á eldsumbrotum vaxi verulega á næstunni enda eru Grímsvötn virkasta megineldstöð landsins.

Öræfajökull

Gosin tvö í eldfjallinu á sögulegum tíma eru vel kunn. Undanfarin ár hafa komið fram ummerki um aukna virkni: Nýtt jarðhitasvæði undir miðjum jökulbunkanum, jarðhitavatn í afrennsli og aukin skjálftavirkni undir fjallinu. Atburðrás sem þessi getur staðið árum eða áratugum saman, án eldsumbrota en einnig mögulegt að hún stigmagnist, m.a. með kvikuinnskotum sem kynnu að vera undanfari eldgoss.

Askja

Askja á sér langa og fjölbreytta eldgosasögu. Frá því snemma í ágúst 2021 hefur mælst yfir 20 cm landhækkun, með rismiðju á vesturbakka Öskjuvatns. Töluverð skjálftavirkni er samtímis, en austanvert við vatnið. Líkanreikningar benda innflæðis kviku undir Öskju. Atburðarásin getur orðið löng og slitrótt og stöðvast án eldsumbrota, en líka farið svo að gos hefjist í Öskju eða utan Dyngjufjalla.

Bárðarbunga

Bárðarbunga sýnir engin merki þess að hún leggist í langan dvala eftir Holuhraunselda 2014-2015, þvert á móti: Landris, mælt utan í eldfjallinu, viðvarandi skjálftavirkni, m.a. stóra skjálfta á hringlaga öskjujaðrinum, litla skjálfta á miklu dýpi austan fjallsins (ættardýpi kviku), og aukinn jarðhita í öskjunni. Líkur á eldgosi þar eða utan í eldstöðvakerfinu eru töluverðar.

Torfajökull

Einkenni Torfajökulsmegineldstöðvarinnar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar myndanir úr kísilríku (súru) bergi. Sprungukerfi Bárðabungu og norðurhluti öskju Torfajökuls skarast og gliðnunarhrinur í því fyrrnefnda kalla fram óróa og jafnvel eldgos í því síðarnefnda. Alltíðar jarðskjálftahrinur ganga yfir Torfajökulssvæðið. Þær og sagan vísa til þess að gera má ráð fyrir eldsumbrotum fyrr eða síðar.

Katla

Katla hefur lengi sýnt af sér hefðbundin merki aukinnar en bylgjóttrar virkni, svo sem tímabundið landris, fjölgun háhitasvæða, minni háttar jökulhlaup og nokkuð þráláta jarðskjálftavirkni víða í öskjunni og undir Goðabungu. Öflugir jarðskjáftar eða skyndilegt landris, eru vafalítið undanfari eldsumbrota, en nú sem stendur er ekki unnt að bæta neinu við setninguna: – Fylgst er vandlega með eldstöðinni.

Hengill

Árin 1994 til 1999 mældust fjölmargir skjálftar í Hengli og nágrenni og landris varð á miðsvæði eldstöðvakerfisins, vegna innskots í rætur fjallsins. Vel er fylgst  með Hengilskerfinu, m.a. vegna skjálfta sem tengjast niðurdælingu jarðhitavökva en hún er þó ekki talin hafa nein áhrif á ástand kvikugeyma á miklu meira dýpi en dælingin nær til.

Brennisteinsfjöll

Vestan við Hengilskerfis nær virkt eldstöðvakerfi yfir Brennisteinsfjöll, Bláfjöll og nágrenni þessa hálendis. Jarðskjálftar( M6+) geta orðið á N-S sprungum í kerfinu. Allsnarpar, nýlegar skjálftahrinur í kerfin eru dæmi um óróleika og óvíst hvernig það bregst við umbrotatímabili sem kann að vera í uppsiglingu á öllum skaganum.

Krafla

Þriðja gliðnunar- og goshrinan á sögulegum tíma í Kröflukerfinu gekk yfir 1975-1984 með yfir tuttugu kvikuhlaupum (innskotahrinum) og níu eldgosum. Gera má ráð fyrir aldalöngu goshléi í Kröflukerfinu en þó er aldrei unnt að fullyrða um hegðan eldstöðva, eingöngu miðað við fyrri sögu.

Reykjaneskerfið

Plötuskil Norður-Atlantshafshryggjarins ná inn á land á Reykjanesi.  Nýlegir skjálftar, tilfærslur háhitasvæða og möguleg innskotavirkni benda til þess að Reykjaneskerfið sé virkt glinunar og eldgosasvæði sem getur opnast fyrir kviku að neðan, úti á hafi eða inni á landi.

Snæfellsnes

Snæfellsnes skera þrjú eldstöðvakerfi. Tvö þeirra eru áberandi: Snæfellsjökull og nágrenni og Ljósufjallakerfið sem liggur frá Hraunsfirði yfir Hnappadal, Hítardal og að Grábrók í Norðurárdal. Lítil skjálftavirkni er í og við Snæfellsjökul en ástæða til að að rannsaka innviði hans betur og auka vöktun. Mun meiri skjálftavirkni hefur verið um miðbik Ljósufjallakerfisins, einkum í Hítardal. Af henni verða þó ekki dregnar neinar ályktanir um hættu á eldgosi en full ástæða til árverkni og góðrar vöktunar.

Vestmannaeyjar

Engin umtalsverð merki hafa komið fram um óróleika í eldstöðvakefi Eyja á alllöngu árabili.

 

Önnur eldstöðvakerfi í landinu en hér koma fram geta breytt og aukið virkni sína hvenær sem er. Þess vegna hefur verið byggt upp öflugt rannsókna- og vöktunarkerfi.

 

 

Leave a Reply

Join the Lava Club

Get updated information regarding the exhibition and special offers. We also send regularly updated information on Icelandic volcanoes and email alerts on eruption and earthquakes.