Skip to main content
Eldgos í grím

Eldgos í Grímsvötnum. Mynd: Ragnar Th.

Grímsvatna-eldfjallið í Vatnajökli er stórt og askjan í því samsett úr þremur sigkötlum. Eldstöðvakerfið er í heild um 100 km langt og allt að 20 km breitt. Langoftast koma eldgosin upp í öskjunni, yfir 50 gos á sögulegum tíma. Eldgos verða líka í sprungukerfinu utan jökuls, t.d. stórgosið 1783 sem nefnist Skaftáreldar. Árið 1996  varð allöflugt eldgos á sprungu undir jöklinum, í Gjálp, norðvestan við Grímsvötn.

Stöðuvatn leynist undir 100-200 m þykkri íshellu í Grímsvötnum. Það stafar m.a. mikilli jarðhitavirkni. Jökulís bráðnar, bræðsluvatn og leysingavatn safnast fyrir þar til það brýst fram undan Skeiðarájökli, með nokkurra ára bili, í svokölluðu jökulhlaupi,. Rennsli er oftast nokkur þúsund tonn á sekúndu, nema þegar eldgos bæta miklu vatni í jökulhlaupin. Hlaupið 1996 náði um 50 þúsund rúmm rennsli á sekúndu.

Grímsvatnagos eru gjóskugos með mikilli gufumyndun. Flest eru stutt og gjóskumagn lítið en sum gosanna hafa þó orðið öflug og gjóska fallð víða um land.

Í Grímsvötnum hefur verið lífleg gosvirkni á síðustu öld og eftir aldamótin, síðast 1922, 1934, 1938 (norðvestan við Grímsvötn), 1983, 1998, 2004 og 2011, auk Gjálpargosins 1996.

Allmikil jökulhlaup, flest vegna jarðhitavirkni, hafa verið regluleg en þó smá eftir stóra Gjálparhlaupið. Síðla sl. nóvember 2021 hafði um 1 milljarður rúmmetra vatns safnast í öskjuna, skv. mæligögnum. Þá var 17 ferkm stöðuvatn undir fljótandi jökulhellunni og hækkaði stöðugt í því. Í lok nóvember lyftist ísinn austan í öskjunni og vatn flæddi um 50 km leið undir jökli í Gígjukvísl. Náði rennslið a.m.k. 3.500 rúmm á sekúndu (um tífalt meðalrennsli Ölfusár). Íshellan hafði þá sigið 75 m.

Kvika safnast til megineldstöðvarinnar, nú sem undanfarna áratugi. Það sést á landrisi, mældu m.a. á Grímsfjalli. Töluverð skjálftavirkni hefur verið í Grímsvötnum, undanfarin ár, og skjálftar náð yfir 3 að stærð. Sum Grímsvatnagos leiða beinlínis til Skeiðarárhlaupa en jökulhlaup geta líka leyst Grímsvatnagos úr læðingi eins og árið 2004. Nýlokið jökulhlaup hefur létt á þunga á kvikuhólf Grímsvatna og gæti það aukið líkur á að eldgosi á næstunni.

Ari Trausti Guðmundsson

 

Leave a Reply

Join the Lava Club

Get updated information regarding the exhibition and special offers. We also send regularly updated information on Icelandic volcanoes and email alerts on eruption and earthquakes.