Nýleg jökulhlaup úr tveimur vel þekktum sigkötlum í yfirborði Vatnajökuls verða vegna legu háhitasvæða undir ísnum. Hlaupin koma í Skaftá og katlarnir eru því nefndir Eystri- og Vestari Skaftárketill. Þeir eru um 50-100 m djúpir og dýpka við sig á milli hlaupa sem verða á 2-3 ára meðalfresti. Vatnið brýst út úr stórum hvelfingum sem jarðhitinn bræðir í jökulinn undir ískötlunum. Rennslið er oftast milli 1.000 og 3.000 rúmmetrar/sek. Skaftá tekur við vatninu en vex mjög við það og ryðst yfir sanda, hraun og gróið land, víða utan venjulega farvegarins. Svona „jarðhitahlaup“ eru oftast miklu minni en jökulhlaup sem verða vegna eldgosa undir jöklum, t.d. Vatnajökli og Mýrdalsjökli, en geta samt valdið tjóni. Skaftárhlaup 2015 olli verulegum landskemmdum og skemmdum á mikilvægri brú en í júní 2016 varð hlaupið miklum mun minna. Þriðja tegund jökulhlaupa koma úr jökulstífluðum lónum sem safna vatni uns jökulstíflan lyftist.