Skip to main content

Jökulþakta eldfjallið Katla með sinni stóru öskju hefur ekki gosið svo öruggt sé síðan 1918. Líkt og í Heklu urðu þar eldsumbrot einu sinni til tvisvar á öld, allt frá landnámi. Gosin hafa valdið illvígu gjóskufalli og mjög öflugum jökulhlaupum. Þau lenda í sjó og valda flóðbylgjum (örfáir metrar á hæð) næst sér en þær ná alls ekki yfir úthafið eins og margir meginlandsbúar óttast. Katla er nú í ferli upphitunar ef dæma má af mæligögnum. Hún rís, að nokkru vegna minni ísþekju en áður en líka vegna innstreymis kviku í grunnstætt kvikuhólf. Það sést á fjölbreyttum og tíðum jarðskjálftum. Sumir eru óvenju öflugir, samfara röskun í öskjunni, en á litlu dýpi en aðrir (og minni) eiga upptök sín djúpt undir fjallinu.

Katla er eldstöð staðsett undir Mýrdalsjökli. Jökulinn má sjá hægra megin á myndinni.

Engu er hægt að spá um framvinduna. Katla getur gosið hvenær sem er en um afl gossins, lengd þess eða leið jökulhlaups er ekkert hægt að segja. Vatnasvið undir Mýrdalsjökli eru þrjú og hlaupleiðræðst af því hvar gossprunga opnast. Gjóska getur fallið víða og valdið tjóni. Ekki er útilokað að hún trufli flugumferð um tíma eða aska falli í nágrannalöndunum en það er þó alls engin regla. Jökulhlaup niður Mýrdalssand getur valdið tjóni á landi og í byggð. Það sama gildir um hlaup úr Sólheimajökli eða undan Entujökli og fram Markarfljótsaura. Það síðastnefnda gæti haft mjög alvaralegar afleiðingar.

Leave a Reply

Join the Lava Club

Get updated information regarding the exhibition and special offers. We also send regularly updated information on Icelandic volcanoes and email alerts on eruption and earthquakes.