Skip to main content
Kort með jarðskjálftum síðustu daga

Mynd: Veðurstofa Íslands

Skjálftahrinan sem hófst um laugardaginn 30. júlí á sér upptök á aflangri NA-lægri rein nokkru norðan við Meradali og 3-4 km NA við Fagradalsfjall. Jarðskjálftarnir raðast í hefðbundna NA-sprungustefnu og hliðlægt við gossprunguna frá 2021. Kl. 16.30 höfðu mælst um 465 skjálftar, margir á 4-8 km dýpi, örfáir á yfir 10 km dýpi og allmargir á 1-4 km dýpi. Mat sérfræðinga er að um kvikuhlaup geti verið að ræða. Kvika gæti brotið sér leið upp á yfirborðið. Æ fleiri grunnir skjálftar myndu benda til þess. Óvissustigi Almannavarna hefur verið komið á.
Mánudaginn 1. ágúst er orðið ljóst að kvika á hreyfingu veldur spennu sem losnar í skjálftum OG myndun kvikuinnskota (lóðréttur gangur og/eða meira eða minna lárétt silla – eitt eða fleiri innskot). Kvika hefur nálgast yfirborð jarðar samkvæmt minnkandi upptakadýpi margra skjálfta. Töluvert margir skjálftra eiga ekki upptök virkustu í NA-lægu reininni norðaustan við Fagradalsfjall, heldur vítt og breitt í nágrenninu, m.a. nálægt Grindavík. Þar losnar spenna sem safnast upp í bergi utan virkustu reinarinnar þar til það brestur – þess vegna heitið gikkskjálftar. Brátt fást fleiri mæligögn og gervihnattamyndir sem gefa skýrari mynd af atburðaásinni. Hrinan er enn mjög öflug þótt skjálftum hafi fækkað. Þeir voru þó orðnir um 3.300 kl. 09.30 1. ágúst (á sl. 48 st.). Töluverðar líkur eru á eldgosi en hrinan getur gengið yfir án eldsumbrota.

Höf. Ari Trausti Guðmundsson