Skip to main content

Óróleikinn í Öræfajökli er nokkuð óvæntur. Enginn sér framhald atburða fyrir í eldfjallinu en vöktun hefur verið aukin, samráðshópur vísindamanna og Almannavarna unnið sín störf og viðbrögð skipulög í samvinnu við heimamenn fyrir austan. Um það bil í miðri jökulfylltri öskjunni sést nú 1000 m breiður og ca. 20-25 m djúpur sigketil. Ísinn er allt að 500-600 m þykkur í öskjunni. Undir katlinum er bullandi jarðhiti sem tengja má aukinni skjálftavirkni og mögulegri innkomu kviku djúpt inn í rætur Öræfajökuls ef marka má suma dýpstu skjálftana – og þeirri staðreynd að skjálftavirkni (var lengi afar lítil) jókst verulega síðla árs 2016. Aukin rafleiðni í Kvíá, nokkuð aukið rennsli og „hveralykt“ úr henni eru sígild ummerki virkni háhitasvæðis. Vissulega getur núverandi atburðarás stöðvast án mikilla tíðinda en hún getur allt eins verið upphafsfasi í ferli sem leiðir til eldgoss og jökulhlaups. Minni jökulhlaup en vegna eldgoss geta komið fram við einbera jarðhitavirknina; þ.e. aukist hún mikið eða þessi leki í Kvíá nægir ekki til að koma í veg fyrir að hvelfing bráðni upp í jökulísinn uns hleypur úr henni. Minna má á að í Eyjafjallajökli tók það a.m.k. 16 ár frá því mæld voru þar fyrstu óróleikamerki þar til gos hófst 2010. Ekkert af stóru eldfjöllunum okkar hagar sér þó eins og eitthvert hinna. Eldgosið í Öræfajökli 1362 var mjög öflugt, allt að 10 rúmkílómetrar af ferskri gjósku dreifðust yfir um 36.000 ferkm lands en yfir miklum mun stærra hafsvæði til suðurs. Seinna gosið 1727-8 (vestan til í jöklinum) var miklu smærra í sniðum en hlaup í báðum tilvikum illvíg. Líta ber alvarlegum augum á þetta gamla og stóra eldfjall sem getur verið ýmist lamb eða ljón.

Öræfajökull

Öræfajökull

Leave a Reply