Skip to main content

Tilkynnt var í dag að Basalt Arkitektar og Gagarín hlytu hin virtu Red Dot verðlaun fyrir Lava eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðina á Hvolsvelli.

Red Dot verðlaunin eru ein eftirsóttustu hönnunarverðlaun sem veitt eru. Sýningin var verðlaunuð í tveim flokkum; fyrir sýningarhönnun og gagnvirkni/viðmótshönnun.

Alls bárust dómnefndinni 8.610 innsendingar frá 45 þjóðum.

„Verðlaun­in eru afar mikilvæg viður­kenn­ing fyrir okkur og sýn­ir glöggt hve sam­keppn­is­hæf við erum í hönnun á alþjóðavísu. Árangursríkt þverfaglegt samstarf er mjög mikilvægur þáttur þegar tekist er á við flókin hönnunarverkefni eins og í Lava Eldfjallamiðstöð.” segir Marcos Zotes, frá Basalt Arkitektum.

Young people interacting with virtual volcanoes at the LAVA Centre - reddot award 2018

Virtual volcanoes at LAVA Centre.
Photographer: Magnus Elvar Jonsson

Söfn gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu

LAVA Centre opnaði sumarið 2017, en hún útskýrir sum af þeim margbrotnu og stórfenglegu náttúruöflum sem hafa mótað jörðina og hófu myndun Íslands fyrir tugmilljónum ára. Auk þess sem að hún kynnir eldvirkni á Íslandi og þá sérstaklega nágrannaeldstöðva LAVA á Suðurlandi með gagnvirkum og skemmtilegum hætti.

„Sam­keppn­in um gesti í sýn­ing­um, söfn­um og al­mennt afþrey­ing­ar­tengd­um viðburðum er alltaf að aukast og því er mik­il­vægt að vanda til verks. Söfn og sýn­ing­ar gegna mjög mik­il­vægu hlut­verki í sam­fé­lag­inu og geta stuðlað að aukn­um skiln­ingi á því hvaðan við kom­um og hvert við stefn­um. Góðar sýn­ing­ar vekja áhuga, kalla fram viðbrögð og fá gesti til að spyrja sig spurn­inga,” segir Kristín Eva Ólafsdóttir frá Gagarín.

Margverðlaunuð sýning

Basalt arkitektar hönnuðu bygginguna. Sýningarhönnun var í höndum Basalt Arkitekta og Gagarín og var sýningin unnin í nánu samstarfi við Ara Trausta Guðmundsson, Lisku, Irmu Studio og Feris.

Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem LAVA hlýtur en fyrr á árinu hefur sýningin fengið eftirfarandi verðlaun:

  • Silfurverðlaun á Evrópsku hönnunarverðlaununum (European Design Awards 2018) fyrir stafræna innsetningu.
  • Þrenn verðlaun á uppskeruhátíð Félags íslenskra teiknara (FÍT): aðalverðlaun og fyrstu verðlaun fyrir upplýsingagrafík og gagnvirka miðlun
  • Íslensku lýsingarverðlaunin: fyrstu verðlaun fyrir lýsingarverkefni innanhúss og fyrir lampa og ljósbúnað.
  • Verkefni ársins hjá Reykjavik Grapevine
  • Heiðursverðlaun í flokki sýninga hjá SEGD (SEGD Global Design Awards)
  • Heiðursverðlaun vegna frumkvæðis í fræðandi hönnun hjá Core 77 hönnunarverðlaununum (Core77 Design Awards 2018)
  • Silfurverðlaun fyrir mynd og tækni á Muse verðlaununum (Muse Awards)
  • PVS verðlaunin fyrir samþættingu á hljóði (PVS Awards)

 

Þessar fjölmörgu viðurkenninga sýna svart á hvítu hve góð sýningin er og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa, við höfum átt frábært fyrsta ár í rekstri,” segir Bárður Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri LAVA Centre.

Red Dot

Red Dot Design Awards eru ein eftirsóttustu hönnunarverðlaun sem veitt eru og má rekja sögu þeirra allt til ársins 1955. Í dómnefnd sitja tugir aðila frá 57 löndum, þar á meðal hönnunarsérfræðingar, háskólaprófessorar og blaðamenn. Verðlaunin eru þau umfangsmestu og útbreiddustu samkeppnisverðlaun sem veitt eru í heiminum í dag. Þann 26. október næstkomandi verður verðlaunaahfending við hátíðlega athöfn í Konzerthaus Berlín og formleg opnun sýningar á öllu verðlaunuðu efni.

Basalt Arkitektar

Starfsemi Basalt Arkitekta nær yfir fjölbreytt svið hönnunar og arkitektúrs. Áhersla er lögð á umhverfisleg, jarðfræðileg, menningarleg og söguleg einkenni hvers verkefnis, með upplifun notenda og óskir verkkaupa að leiðarljósi. Meðal verkefna sem Basalt hafa unnið eru allir áfangar Bláa Lónsins, Sundlaugin á Hofsósi, Hótel við Mývatn og Vatnajökul. Í byggingu eru einnig verkefni víða um landið, Sjóböð á Húsavík, Guðlaug við Langasand á Akranesi og Vök við Urriðavatn á Austurlandi.

www.basalt.is

 

Gagarín

Gagarín sérhæfir sig á sviði stafrænnar hönnunar og framleiðlsu á gagnvirkum sýningum. Fyrirtækið starfar fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja skapa áhugaverða upplifun um leið og fræðslu og upplýsingum er komið á framfæri. Meðal sýninga sem Gagarín hefur komið að hér á landi eru Eldheimar í Vestmannaeyjum, Hvalasafnið, Landnámssýningin Aðalstræti, gestastofa Landsvirkjunnar í Ljósafossstöð og nýlega opnaði gagnvirk sýning á Þingvöllum.

www.gagarin.is

 

 

Leave a Reply